Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Súkkulaðikaka

Á morgun, 28. janúar verður stóri strákurinn minn 16 ára, og hann er svo stór að hann slagar hátt uppí 190cm. Þetta er algjör dugnaðarforkur og mamman að sjálfsögðu voða stolt af honum.

En er þá ekki bara kominn tími á uppskrift.

Heima hjá mér er þetta uppáhalds afmæliskakan:

Súkkulaðikaka:

1 1/2 bolli sykur

125 gr. smjörlíki

2 egg 

1 tsk. lyftiduft

1tsk. sódaduft

1/2 tsk. salt

2 1/2 msk. bökunarkakó

1 bolli súrmjólk

1 tsk. vanilludropar

2 1/2 bolli hveiti

Smjör og sykur þeytt létt og ljóst, síðan eggin eitt og eitt í einu, svo rest af blautum efnum. Síðast er öllum  þurrefnum bætt við og hrært mjög varlega. Bakist á ca 175°C aðeins neðar en í miðjum ofni i ca 15-20 mín.

Þetta eru 2 stórir þéttir botnar.

Krem á milli:

300 gr. flórsykur

2 mtsk. kakó

150 gr. smjörlíki

1/2 tsk.. vanilludropar

1 egg

allt þeytt vel saman, ef kremið er svakalega þykkt, þá er 1 mtsk. af sjóðandi heitu vatni bætt við.

Krem ofaná:

125 gr suðusúkkulaði

 150 gr. Flórsykur

75 gr. smjör

1 egg

Bræðið súkkulaði og smjörlíki við vægan hita.

hrærið saman egg og flórsykur og bætið svo súkkulaðismjörinu saman við og hrærið vel.

Nammmmmiiiii.......


Leit í skúmaskotum

Jæja, nú ætti ég barasta að fara að leita í skúmaskotum heimilisins að "ljósinu".

Sko! ég gaf nefnilega karlinum fyrir nokkrum árum svona gleðiljós, eða svona gerfidagsbirtuWink Svo er það bara með svona græjur að þær eru notaðar og notaðar mikið í soldinn tíma en er síðan smátt og smátt ýtt til hliðar þar til þær eru bara orðnar fyrir og enda síðan í geymslum eða skápum eða einhversstaðar þar sem maður man alls ekki hvar er.

En þetta ljós er alveg brilljant svona í skammdeginu, lýsir alveg eins og þegar maður er úti á spáni á ótrúlega sólríkum, skílausum og fallegum degi, bara eins og smá gluggi inn í gleðina Cool

Best að fara að leita svo rigningarsuddinn-ruddinn, nái ekki tökum á manniTounge


Gleðilegt nýtt ár 2009

Þetta liðna ár hefur verið margbreytilegt á ýmsan hátt. Gleði og sorg og allt þar á milli.

Nú er komið heilt ár síðan ég byrjaði í nýrri vinnu og var það kærkomið að breyta til eftir 8 ár sem dagmamma. Það var þó erfitt að hella sér út í hringiðu desembermánaðar (2007) í nýtt starf og allt það sem þarf að læra á nýjum vettvangi, en samt skemmtilegt að takast á við.

Svo dó mamma í desember 2007. Yndislegasta kona veraldar. Ég sakna hennar oft og finnst skrítið að hún skuli vera farin þó hún hafi verið háöldruð. Hún hefði orðið 87 ára næsta sumar. Ásta frænka, systir hennar mömmu dó svo 2 mánuðum seinna.

Kvennakór Reykjavíkur hefur verið mitt líf og yndi. Svakalega skemmtilegar konur þar og öll ferðalögin sem farin voru og ég tala nú ekki um frábæra tónleika sem haldnir hafa verið. Óskaplega gaman að taka þátt í þessu starfi.

Rakel vinkona opnaði nýtt fyrirtæki og vann ég mikið hjá henni síðasta sumar meðan brjálað var að gera og fyrirtækið að festa sig í sessi.

Notaði mitt stutta sumarfrí til að njóta nágrannasveitafélaganna. Sund, tjaldferðir, Nauthólsvík...

Ekki má gleyma saumó. Þar eru sko kjarnakonur í hverju horni. Við brölluðum margt á árinu, fórum í útilegu, borðuðum góðan mat saman, hittumst á kaffihúsum, fórum í kvennaflokk í Vindáshlíð, dillibossuðumst í magadansi og svo ótalmargt fleira.

Strákarnir mínir eru alveg þeir frábærustu af öllum strákum. Skemmtilegir og duglegir. Sá eldri byrjaði í Flensborg í haust og brilleraði alveg á jólaprófunum. Sá yngri fékk líka ótrúlega flottar einkunnir núna fyrir jólin. Þeir eru með margt á prjónunum og gaman að fylgjast með sigrum þeirra og sorgum.

Þegar litið er yfir liðið ár er af mörgu að taka. Vonandi færir nýja árið okkur gleði og ánægju og góðan félagsskap.

Kærar kveðjur til allra sem lesa þetta blogg

Gleðilegt nýtt ár 2009


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband