Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Yndisfagur snjórinn

Í gærkvöldi þegar ég kom af kóræfingu, var allt svo fallegt. Allir bílar með hvíta kollhúfu og drifhvít jörðin.

Ég tók mér góðan tíma að bursta af bílnum og þegar ég var búin var hann alveg jafn hvítur á fyrstu rúðunni sem ég hafði skafið. Jæja ég sest í bílinn sem var að byrja að hitna og set rúðuþurrkurnar á. 

Athygli mína vakti að þær stoppuðu yfir miðja rúðuna.... ég fór út og ýtti við þeim. Ekki nema von að þær væru þreyttar eftir mikla vinnu og erfiði út af allri bleytunni og skítnum á götunum undanfarna daga. En þær fóru ekki niður nema ég ýtti þeim alla leið. Jæja, ætli öryggin séu ekki farin, hugsaði ég og fór að leita að boxinu þar sem öryggin búa. Það gekk nú ekkert vel að finna það, en á endanum fann ég boxið en þar var ekkert auka öryggi svo ég ákvað að keyra út á næstu bensínstöð sem til allrar hamingju var mjög nálægt. 

Á bensínstöðinni var hvert einasta öryggi mælt, en ekkert var að þeim. Öll heil og heilbrigð eins og eitt öryggi getur verið.

Nú voru góð ráð dýr... eiginlega alveg rándýr.

Því tvennt var í stöðunni í þessari miklu snjókomu. Annað var að taka leigubíl alla leið frá Glæsibæ inn í Hafnarfjörð, eða biðja kallinn um að sækja mig. Ekki kom til greina að keyra heim því þá hefði ég ekkert séð út um gluggana. Það síðara varð fyrir valinu því svona rétt fyrir mánaðarmót tími ég ekki að splæsa í leigubíl.

Meðan ég beið, snjóaði án afláts. Fallegur mjúkur og hlýr snjór. Ef hægt er að kalla snjó hlýjan, það var allavega orðið hlýtt í bílnum... Alltaf öðru hvoru prufaði ég hvort þurrkurnar væru ekki bara búnar að hvíla sig og færu nú í gang. Bara fyrir mig. En það suðaði bara í þeim værðarlegt mal. Eftir tæpan hálftíma kom karlinn að sækja kerlu sína.

Þá er bara að panta tíma á bílaspítala og vona að það kosti ekki meira en einn leigubíll í Fjörðinn.


12 dagar á spítala

blómogkertiJæja, það var stutt á milli systranna.

Ásta mín fékk að fara á föstudaginn, hún dó 22. febrúar eftir 12 daga spítalalegu. Mamma mín kvaddi okkur 20. desember 2007 og Ásta systir hennar 2 mánuðum seinna. Þær voru mjög nánar systur og mikið saman þar til ellin fór að segja til sín og þær fóru ekki mikið útúr húsi síðustu árin.

Bless Ásta mín og Guð geymi þig.


AMMÆLISBANN

IMG_0408Valurinn minn orðinn 11 ára. Fæddist 25. febrúar kl. 8:40, 15 merkur og 50 cm og er núna 11 árum seinna orðinn u.þ.b. metri stærri.

Til hamingju með daginn strákurInLove 


Yfirlýsing um ekkert

Þetta er nú ansi þunnur þrettándi að taka ákvörðun um ekkert, ákvörðun um að taka enga ákvörðun, ákvörðun um að sitja hjá, og allir hans flokksmenn styðja þessa enga ákvörðun. Þetta er bara eins og nýju fötin keisarans.
mbl.is Styður yfirlýsingu Vilhjálms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins gott að þeir gátu náð í hjálp

Það getur stundum verið ansi erfitt að ná símasambandi þarna
mbl.is Tveir menn féllu niður um ís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágætt bara

Þetta er alveg ágætis lag sem vann. Ég var reyndar ekki búin að fylgjast það vel með  að ég hafði ekki heyrt það áður. Held að þau verði bara ágæt, ung og hress og góðir söngvarar. 
mbl.is Eurobandið fer til Serbíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning um fræðslu

Jahérna!! Jú, er þetta ekki spurning um fræðslu um getnaðarvarnir.  Aðeins 16 ára og búin að ganga með þrisvar sinnum. Væri ekki bara búið að athuga með barnaverndarnefnd hér á landi?! En svo veit maður ekkert um hvað liggur á bakvið allar þessar fæðingar. Gæti verið nauðganir jafnvel. Það stendur ekkert í fréttinni hvort hún eigi mann eða kærasta. En þrátt fyrir allt, þá er þetta ótrúleg frjósemi hjá stúlkunni
mbl.is Unglingsstúlka eignast aftur þríbura
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitti gamla vinkonu

Í dag fór ég með karlinum og yngri stráknum í perluna að versla skó. Eftir það fórum við í bíltúr niðrí bæ og þá datt allt í einu í huga minn að mér var nýlega sagt að hún Sæunn, vinkona frá í gamladaga, væri búin að opna kaffihús. Ég hef ekki hitt hana í langan tíma og vissi ekki hvar kaffihúsið væri.

Á leiðinni heim fórum við í matvörubúð að versla fyrir vikuna og hvað haldiði!! Er ekki bara Sæunn að versla. Það var nú gaman að hitta hana. Kaffihúsið heitir Glætan og er svona bókakaffi og er í Aðalstræti 9 http://www.glaetan.is/?   Verð að kíkja þangað einhvern morguninn að taka út staðinn. Ef þú kemur með flottan bolla og gefur staðnum, færðu kaffi í staðinn. Ekki slæmt það.


Inná spítala

Var í dag inná Lansa með Ástu frænku, móðursystur minni. Hún er ósköp veik komin með lungnabólgu og var vart hugað líf í nótt. En hún er hörku kelling og hristi þetta allt af sér, orðin hitalaus um kaffileytið í dag.

Það er voða erfitt að vera veikt gamalmenni á landinu okkar góða. Fara þarf á milli Pontíusar og Pílatusar til að fá einhverjar leiðbeiningar. Það "góða" við þetta núna, er að við systkynin erum búin að ganga í gegnum þetta allt með mömmu okkar og vitum nokkurn vegin hvernig á að snúa sér í málinu með Ástu frænku núna. Það er hvergi hægt að fá upplýsingar á einum stað um það hvað á að gera og hvernig maður á að snúa sér. Hvergi hægt að fara í einvern farveg án þess að hringja ca 110 símtöl og tala við álíka marga áður en einn partur af stóru svari fæst 

Starfsfólkið á spítalanum er yndislegt og vildi allt fyrir hana Ástu mína gera, en kerfið, skortur á starfsfólki á hjúkrunarheimilim og fjöldi hjúkrunarrýma er ekkert til að hrópa húrra yfir. Að koma öldruðu fólki á hjúkrunarheimili er sko enginn hægðarleikur. Ekki bara út af fáum plássum heldur eru þetta svo hrikalega láglaunuð störf að fólk fæst ekki til að vinna þau.

 

 


Nú er mér kalt! Hvernig líður smáfuglunum?

Bara það að horfa út um gluggann og heyra hvína í öllu, þá kólnar mér alveg inn að beini. Í vinnunni í gær var ég komin í 3 peysur og það var enn hrollur í mér. Tók upp á því að hlaupa nokkrar ferðir upp og niður stigann og fékk þá smá hlýju í kroppinn.Smile

Þá varð mér hugsað til smáfuglanna. Greyjin! Hvar eru þeir í svona veðri? Hvar skyldu þessi litlu kríli halda til? Hvað ætli margir deyji á einum vetri. Þegar ég var krakki, fundum við vinkonurnar stundum dána smáfugla og jörðuðum þá í garðinum. Fengum skókassa og koddaver til að hafa hlýlegt. 

  

Á sumrin gleðja þeir okkur með söng og fegurð sinni, en á veturna gleymum við þeim allt of oft. Það er kanski erfitt að gefa þeim fræ núna því það fennir yfir allt korn strax. En það eru til korn í neti til að hengja upp og þá fennir ekki yfir allt strax. Best að kaupa þetta á leiðinni í vinnuna á eftir. Sá þetta í Europris núna í haust, vona að það sé til enn. Ég get hengt þetta á grillið, það stendur í skjói. Þá friðar maður samviskuna smá. Pabbi gefur þeim alltaf kartöfluhýði og hreinlega allt sem fellur til, jafnvel afgang af soðnum hafragraut.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband